miðvikudagur, júní 17, 2009

Hvalkjöt og kandífloss

Dagurinn í dag hefur verið með miklum ágætum, algerlega laus við skrúðgöngur, rellur, kandífloss og klístruð risasnuð. Það er djúpt á þjóðrembunni í mér þessa dagana, get varla farið í lopasokka eða sagt "mysingur". Hvað þá "tólg".

Fyrir ykkur sem viljið lesa um æsispennandi lífsstíl blanka og ófræga fólksins (sem fær aldrei orður eða verðlaunastyttur), þá get ég ljóstrað upp að ég fór í Bónus (alls staðar opið, af sem áður var), síðan í fjallgöngu á Vífilsfell, því næst þreif ég klósett og þvoði þvott og núna rétt áðan var ég að ljúka við fyrirtaks máltíð. Hrefnukjöt og bakaðar kartöflur. Salat, mynta og graslaukur af svölunum. Rækta nefnilega eitt og annað í svalakössum, en, nei, ekkert kannabis.

Svo var ég að spá í að fara ómáluð út á bensínstöð. Og kannski maður bregði sér í brjóstaminnkun líka.
Grýla sagði mér í óspurðum fréttum að ástandið væri gott. Hún er náttúrlega annáluð bjartsýnismanneskja og á í kvöld stefnumót við feitan útrásarvíking á harmónikkuballi á Ingólfstorgi. Allir þekkja smekk Grýlu á karlmönnum, verði henni að góðu.

Sumar.

Engin ummæli: