Þessa mynd tók ég af Matta mínum rétt áðan. Hann er 18 ára í dag og finnst ósköp leiðinlegt að láta taka myndir af sér. Þar sem blogg er hvort eð er að leggjast niður sem ritform, ætla ég að nota tækifærið og monta mig af þessum ljúfa pilti sem er í skákliði MH, stærðfræðinörd og spilar undurvel á píanó. Hann fékk viðurkenningu hjá Tónskóla Sigursveins við skólaslit fyrir frábæra frammistöðu á miðstigsprófi, en þar rúllaði hann upp einkunninni 9,7. Ég veit að svona mömmugrobb er óþolandi, en mér er eiginlega skítsama. Þið þurfið ekkert að lesa þetta. Börnin mín fylla mig stolti og það rífur úr mér hjartað að einhverjir andskotans drulludelar með græðgina og heimskuna að vopni skuli hafa kippt fótunum undan landinu, skert möguleika barna okkar á að afla sér menntunar og lifa í því sem gjarnan kallast velferðarsamfélag. Á sama tíma fyllir það mig von að umgangast alla daga hæfileikaríkt, bjartsýnt og vel gert ungt fólk eins og hann Matta.
Og annað má Matti eiga. Hann er alltaf góður við mömmu sína.
P.S. Mér finnst rétt að geta þess að ég hef nú uppfrætt þennan unga mann um réttindi við 18 ára aldur; þ.e. leyfi til að kvænast, kjósa, kaupa sér sígarettur og fá sér tattú.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli