Blessuð sé rigningin. Íbúðin orðin skínandi hrein, gólf skúruð, búið að bera olíu á tekkið, þvo postulínsmuni, strjúka af ljósakrónum, blása rykinu af undarlegu appelsínugulu silkiblómunum, þvo gluggana, ryksuga leynistaði og pússa gler. Súkkulaðikaka í ofninum, þvottavélin að vinda og von á gestum í mat.
Indælt líf.
Kannist þið við 6 sekúndna regluna? Synir mínir segja að ef maður missir eitthvað ætilegt í gólfið þá megi borða það ef það næst upp innan 6 sekúndna. Á þetta við um karamellur, brauðsneiðar, lakkrís og svo framvegis. Í dag tel ég óhætt að borða gotterí af gólfum heimilisins, jafnvel þótt það liggi í 8 sekúndur.
Legg ekki meira á ykkur, þarf að gá að kökunni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli