miðvikudagur, júlí 30, 2008

Litbrigði

Þingvellir í rjómablíðu, veiðistöng, góður félagsskapur og harðfiskur í nesti. Ómótstæðilegt.
Glaugað heldur áfram að skarta nýjum litbrigðum. Finn að það er horft undarlega á mig og maður hálf skammast sín. Makalaust hvað svona meiðsli eru félagslega merkingarþrungin, óháð uppruna. Mér finnst svo óbærilega kjánalegt að hafa barið sjálfa mig í hausinn með badmintonspaða að það liggur við að ég segist hafa gengið á skáphurð.

Hef tekið eftir því að ég lendi í afar bjánalegum slysum. Fyrir nokkru festi ég höndina á mér í stormjárni og hefði þurft að naga af mér handlegginn ef ég hefði verið ein heima. Til allrar hamingju náði ég að kalla á Matta sem kom og skrúfaði stormjárnið af glugganum. Núna um daginn stóð ég á jafnsléttu þegar ég datt skyndilega um hjólið mitt í kirkjugarði og fékk skurði og skrámur. Þá var ég sannfærð um að draugur hefði hrint mér, sem er merkilegt fyrir þær sakir að ég trúi ekki á drauga. Og nú þetta glóðarauga, það var ekki smart múv. O, jæja. Maður velur sér hvorki ættingja né slys.

Vel á minnst. Hafið þið heyrt í himbrima? Þvílík hljóð, fyrst hélt ég að úlfur væri að spangóla, svo laglaus óperusöngkona að veina og svo einhver klikkhaus að hlæja. Þetta hljóðhanastél kom úr hálsi himbrimahjóna úti á Þingvallavatni í gær. Magnað.

Engin ummæli: