fimmtudagur, júlí 17, 2008

Lifðu vel og lengi, en ekki í fatahengi

Mundu mig, ég man þig. Lifðu í lukku, ekki í krukku. Þú ert svín, ég er fín. Lifðu á landi en ekki á bandi.

Svei mér hvað við vorum fyndin börn. Fékk í gær í hendurnar kassa með alls konar gömlu dóti, þ.m.t. þessa litlu minningabók mína frá árinu 1970.

Bekkjarfélagar og vinir fengu bókina heim með sér og skiluðu henni aftur til eiganda, eftir að hafa skreytt eina blaðsíðu, gjarnan með niðursoðinni fyndni og teikningum. Stundum tók maður "í gegn", teikningar úr blöðum og oft voru skrifuð upp ljóð. Sumir skrifuðu fyrst með blýanti og fóru svo oní með tússlit eða trélit, það voru vandvirku börnin.

Mér finnst fyndið að sjá fimm stafa símanúmerin og skriftina. Aldrei var skrift mín sterka hlið, stafirnir hölluðu til hægri og vinstri á víxl, voru óreglulegir og mikil tilraunastarfsemi í stafagerð. Svo sér maður hjá öðrum (9 ára gömlum), nær fullkomna rithönd, eins og í forskriftarbókunum.

Held að það hafi verið hluti af sjálfmynd minni að skrifa illa, mér fannst ekki eftirsóknarvert að stafir væru fallegir. Veit ekki af hverju. Hugsanlega af því að ég var lítt gefin fyrir fínvinnu og nostur. Man líka að mér fannst svalt að skrifa hratt. Svo las ég bara strákabækur og ætlaði að verða dýralæknir. Sikk transit og allt það..

Í dag skrifa ég hratt, fontavel og læsilega. Á tölvu.

Engin ummæli: