laugardagur, júlí 19, 2008

Þanmörk

Enn er ég í endurminningagírnum. Þessi mynd birtist í Vikunni árið 1978 og textinn var svohljóðandi:

"Ljósmyndari Vikunnar átti leið niður Laugaveginn eitt laugardagskvöld fyrir skömmu og kom þá auga á nokkur ungmenni, sem sátu fyrir utan verslunarglugga og horfðu á sjónvarp. Þau höfðu komið sér vel fyrir við borð og höfðu með sér vistir. Þegar hann fór að forvtinast um, hverju þetta háttalag sætti, komst hann að því, að þetta voru nemendur úr menntaskólanum í Kópavogi, og voru þeir í eins konar vísindandaleiðangri þarna. Voru þeir að gera könnun á viðbrögðum fólks.... Voru viðbrögð vegfarenda á ýmsa lund, að sögn þeirra. Sumir spurðu, hvort þeir væru herstöðvarandstæðingar, en aðrir voru vissir um, að hér væri BSRB í setuverkfalli. Einhverjum datt í hug að þetta væri Spilverk þjóðanna. Lögreglan kom sjö sinnum og spurði, hvort þau vildu ekki færa sig, en flutti þau samt ekki burtu með valdi, þótt bannað sé með lögum að tefja umferð á gangstéttum borgarinnar."

Þetta var ósköp sakleysislegur atburður, ungt fólk að láta reyna á lagabókstafinn, finna mörkin. Man að við vorum skúffuð í aðra röndina yfir að vera ekki handtekin, við brutum jú lög, en samt meira fegin. Alla vega ég.

Nú er ég ekki að líkja þessu dútli okkar kjánaprikanna í MK við alvöru mótmæli, en ég fagna því að ungt fólk skuli leggja það á sig að láta í sér heyra og vekja okkur til umhugsunar um aðgerðir stjórnvalda og fyrirtækja á borð við Century Aluminium. Já, ég er ekki sátt við það verktakalýðræði sem hér ræður ríkjum, ég er ekki sátt við arðrán og mannréttindabrot, ég er ekki sátt við hjartalausa gróðahyggju. Og ég er ekki sátt við dáðleysi Samfylkingarinnar í umhverfismálum. Fagra Ísland, minn rass!

Dagurinn þegar ungt fólk hættir að spyrja grundvallarspurninga, hættir að ögra viðteknum gildum - það er dagurinn sem við getum skrifað upp á dánarvottorð samfélagsins.

Engin ummæli: