Hef borðað nokkrum sinnum á "Icelandic fish and chips", en þar hefur maturinn farið mun betur í munni en nafn staðarins. Bauð dóttur minni hádegisverð þarna í dag, hún er mikil fiskiæta og ég hlakkaði til að leyfa henni að kjamsa á góðum steinbít og laukhringjum (sem eru svívirðilega gómsætir þarna). Við pöntuðum það sem staðurinn "mælti með", þ.e. steinbít á mangóbeði með frönskum og skyrónesi. Skyrónesið sem átti að fylgja með réttinum var með engifer, en Ásta þolir ekki engifer og við spurðum konuna sem tók við pöntun okkar hvort við gætum ekki fengið aðra sósu, því hún þyldi ekki bragðið af engifer. Jú, jú, það var hægt.
Svo kemur maturinn á borðið og Ásta krækir sér eftirvæntingarfull í feitan mangóbita úr salatinu og svipurinn á dóttlu, maður lifandi. "Mangóbeðurinn" var sumsé salat löðrandi í engifer, það stóð ekki á töflunni þar sem listaðir voru réttir dagsins að engifer væri í matnum og við höfðum sérstaklega beðið um aðra skyrónessósu af því að henni þætti engifer mjög vont. Við kölluðum á þjónustustúlkuna og spurðum hvort engifer væri í salatinu. Já, sagði hún. Við bentum henni á að við hefðum sérstaklega tekið fram að Ásta vildi ekki engifer og að það hefði ekki staðið neitt um engifer í þessum rétti. Þá benti hún grautfúl á smátt letur einhvers staðar á töflunni, langt frá staðnum þar sem við höfðum lesið um "rétti dagsins". Spurðum við kurteislega hvort Ásta gæti fengið smá salat (sósulaust) og annan disk svo við gætum tínt fiskinn og kartöflurnar uppúr engifersalatinu. Stúlkan kom snúðug með disk en lét okkur ekki hafa svo mikið sem eitt lítið spínatblað. Við vorum, á þessum tíma, einu gestirnir á staðnum.
Vil taka fram að ég skil ekkert í dóttur minni að vilja ekki engifer, en hún hefur aldrei nokkurn tímann þolað bragðið af þessari ágætu rót, þrátt fyrir fjölmargar tilraunir okkar foreldranna til að lauma engifer í alls kyns rétti.
En...ein svona últra fúl og óliðleg afgreiðsludama getur rústað löngun manns til að fara aftur á veitingastað. Ekki langar mig rassgat aftur á æslandikfisendtjipps, alla vega ekki í bráð. Og það þrátt fyrir laukhringina gómsætu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli