Ég er ekkert sérlega langrækin, en ábyggilega langsár. Er enn með böggum hildar yfir að hafa kíkt á bloggið hans Ármanns of seint fyrir margt löngu. Hann var með með getraun og ég vissi svarið án þess að hugsa mig um andartak. Meina, ég skírði yngri son minn í höfuð aðalpersónu þessara bóka og var sem barn á kafi í sveitarómantík og gömlum gildum, enda alltaf send í sveit á sumrin. Það þótti svo gott fyrir börn að komast af mölinni. Tileinkaði mér þúfnagöngulag, tíndi ullarlagða af gaddavír og skírði heimalninga eftir strákum sem ég var skotin í. Skrifaði mömmu og pabba hrífandi skemmtileg bréf þar sem ég taldi upp nöfn 45 kúa og fimm hunda. Bréfin byrjuðu yfirleitt á orðunum "mér líður vel og ég vona að ykkur líði vel" (þetta þótti kurteislegt).
Finn að ég er að mjakast í gegnum afneitun, reiði og depurð. Það kemur getraun eftir þessa getraun. Gott ég er að vinna í sjálfri mér og stórt skref að hafa komið þessu frá sér. Klapp, klapp á bakið baun.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli