þriðjudagur, júlí 22, 2008

Matvera

Plokkfiskur er vondur, tala nú ekki um þegar maður fær bein upp í sig. Ég elda aldrei plokkfisk. Er að spá í að tala um mat, af því að ég er örg. Hef smakkað ýlduþrátt selspik og fannst það arfavont. Elda aldrei selspik. Harðfiskur er stundum of þurr, og ýsa er ekki mannamatur. Kaupi aldrei ýsu. Elda aldrei ýsu. Ef mér væru gefnar ýsur, mundi ég hakka þær og búa til bollur. Mátulegt á þær, bévaðar ýsurnar. Ég er reið. Stundum veit ég ekki hvað mig langar að borða. Máta í munni og maga súrar gúrkur, rojalbúðing, ferskjur, piparbrjóstsykur, kjúkling, sítrónuhlaup, smokkfisk, hundasúrur. Ekkert ljós á tungunni, alla vega ekki grænt. Um daginn fékk maður á vinnustað hér í borg tyggjó í salatinu sínu. Þetta tyggjó hafði verið tuggið og því erfitt að segja til um hvers konar bragði það skartaði áður en það lenti í slagtogi við gúrkur og tómata. Er tyggjó matvara? Evrópusambandið veit það örugglega, ætli við verðum ekki að ganga í það til að fá svör við nauðsynlegum spurningum. Borðaði hamborgara í kvöld, hann var ljúffengur. Samt ólmast múrmeldýrið inni í mér og vekur maríuhænuna sem er borðleggjandi snefsin.

Engin ummæli: