þriðjudagur, janúar 23, 2007

Lífið er táradalur og mig vantar bát

Nú ætla ég að fá að vera barnaleg, bölsýn, óþroskuð og kjáni. Þið sem ekki þolið slíkt, hættið að lesa HÉR.

Ergelsi baunar.
1. HATA verðtryggð húsnæðislán á okurvöxtum - það er ekki heilbrigt að við skulum láta bjóða okkur þetta, já, sápulaust í rassgatið.

2. HATA heimsk stjórnvöld sem leyfa erlendri stóriðju að vaða hér uppi og eyðileggja landið í vafasamri gróðahyggju og skammsýni.

3. Ergi mig botnlaust yfir misskiptingu auðs hér á landi. Hvaðan kemur allt þetta fólk sem veður í peningum? Hvaða peningar eru þetta? Hvernig stendur á því að sumir eiga svona fáránlega mikið af peningum og ég, sem vinn allan daginn, með mastersgráðu (og tilheyrandi námslánaafborganir) á aldrei aur? Sé aldrei pening? Rétt mer þetta um hver mánaðamót í nettum mínus. Langt frá því auðvitað að ég og börnin mín svelti, á nóg þannig séð, en utanlandsferðir eða bruðl af nokkru tagi eru ekki möguleiki nema ég sendi alla skynsemi í frí. Já, og ég veit að ég á drullugott miðað við marga. En, fjandinn hafi það að maður sé ánægður með óréttlætið.

4. Þoli ekki þegar ég fæ bölsýniskast yfir einhleypustandi mínu, finnst stundum að ég muni aldrei koma til með að kynnast ærlegum manni. Sálufélaga og vini. Heiðarlegum, laghentum, blíðlyndum manni, ókvæntum takk. Má vera kiðfættur, sköllóttur, litblindur, örvhentur, laglaus, þybbinn, loðinn, nefstór og hvaðeina. Bara ekki húmorslaus. Og ekki heimskur.

5. Hata svimandi hátt matarverð. Býst þó við að ég ætti að vera þakklát fyrir að stjórnvöld stefni að því að fella niður tolla af innfluttu hrossaketi og vatni.

Aahh...nú líður mér pínkuponsulítið betur. Samt ennþá reið. Vona að engar viðkvæmar sálir hafi borið skaða af lesningunni.

Engin ummæli: