laugardagur, febrúar 17, 2007

Klakaböndin bresta

Var að koma úr gönguferð að Helgufossi í Mosfellsdal með vini mínum Dóra draumi og tíkinni Sölku Völku. Vorum þarna á slóðum skáldsins, en Laxness ku hafa gengið þessa leið æði oft. Nokkuð laust var við að skáldlegri hugsun slægi niður í koll minn á göngunni, en þó leiddi ég hugann að því hversu skemmtilegt orðalag ég heyrði um daginn, þegar fréttamaður sagði sækjanda hafa "sett dreyrrauðan". Við þessi orð jókst skemmtigildi Baugsmálsins úr -90 í -75.

Í spjalli við annan vin minn, Hauk flugkappa, þá sagði hann orð fréttamannsins hafa kveikt hugrenningatengsl yfir í orðalag í barnabókum fornaldar (þegar við vorum lítil), en þá var viðbrögðum pilts gagnvart hróplegu óréttlæti lýst svo: Hann fór afsíðis og grét beisklega.

Engin ummæli: