þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Fékk áðan að gjöf...

fallegasta blómapott sem ég hef augum litið. Þennan gamla pott færði Ingibjörg vinnufélagi minn mér, en potturinn ku vera úr búi foreldra hennar. Á pottinum eru tveir svanir og gylltar krúsíndúllur í kring - svo ótrúlega rómantískt að maður kemst í upphafið ástand, svei mér þá. Vinnufélagar mínir hafa heldur betur komið sterkir inn, eins og það heitir á íþróttamáli, í því veseni og vandræðagangi sem yfir mig dynur þessa dagana. Ég hef fengið marga góða hluti í búið og haft aðgang að bæði eyrum sem hlusta og öxlum sem taka við saltri vætu. Góð ráð hef ég fengið í bunkum.

Vona að ég sé ekki of væmin (æ, mér er annars skítsama), en ég er hreinlega klökk yfir því að eiga svona góða vini og fjölskyldu. Þegar maður er í basli þá finnur maður sterkt fyrir því hverjir standa með manni. Takk elskurnar mínar:)

Ég er búin að ákveða að halda "sjálfstæðisfagnað" í nýju íbúðinni þegar allt er orðið fínt - þá býð ég öllum sem hafa stutt mig með ráðum og dáð. Ég hlakka óskaplega mikið til:)

Engin ummæli: