Fórum í bæinn nú undir kvöld. Á Austurvelli var eldur í tveimur bálköstum að deyja út, annar hálfkulnaður (S) en í hinum engdust enn daufir logar (D).
Ég verð að gera þá játningu að hjarta mitt þyngdist óþyrmilega við að sjá Alþingishúsið svona illa út leikið.
Aðalmótmælin höfðu færst upp á Hverfisgötu, við Þjóðleikhúsið, vegna fundar Samfylkingar. Kasper, Jasper og Jónatan fylgdust með, aulalegir á svip, enda bara gamaldags ræningjar en ekki séríslensk handmötuð rándýr með teinóttan feld. Þjófarnir í Kardimommubæ stela hlutum, gömlum frænkum og kökum en ekki heilli þjóð.
Já, ég er sammála þér gamli sjóari. Við þurfum að venda kúrs.
Eitthvað hefur verið leyst úr læðingi, það líkamnaðist í eldinum. Ég horfði á það logandi hrædd og gat ekki haft augun af því.
Tímarnir brenna og mennirnir með. Og það er auðvitað svakalegt en í staðinn fyrir að sökkva sér í melankólíu eins og ég gerði eftir að við komum heim greindi Hjálmar innra eðli Geirs.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli