laugardagur, janúar 24, 2009

Kreppumein

Staðfastlega blátt fólk vekur mér furðu stundum. Blá kona sagði við mig í gær, súpandi hveljur af æsingi: Guð hjálpi okkur ef Steingrímur Joð kemst til valda, þá fer allt til fjandans, hann skilar AGS láninu og við þurfum að ganga í roðskóm! Þegar ég hreyfði vesældarlegum mótbárum við þessu argúmenti, æpti hún með skelfingarsvip: Á ég að trúa því Elísabet að þú sért vinstrigræn? Ég stamaði eitthvað, lagði ekki í orðaskak við þessa raddsterku konu, og fannst býsna óþægilegt að vera gerð í einu vetfangi að heilum stjórnmálaflokki. Ég hef aldrei verið stjórnmálaflokkur, heldur stelpa og kona. Hef kosið ýmsa flokka en aldrei skilgreint sjálfa mig sem flokk. Það væri bara fitandi.

Ef ég fæ krabbamein, sem er ósköp líklegt því það er algengur sjúkdómur, langar mig að gripið verði til aðgerða til að sporna gegn því. Aðgerðaleysi mun ekki hefta útbreiðslu meinsins, heldur verð ég veikari ef það fær að grassera. Það er mín skoðun, en ef einhver spyr krabbameinið álits, segir það ábyggilega: Guð minn á himnum, það er miklu betra að leyfa mér að vaxa og dafna, alls ekki grípa til aðgerða gegn mér! Ég veit miklu betur en þú sjálf hvað er líkama þínum fyrir bestu.

Ætla á Austurvöll í dag, aðgerðaleysi er ekki kostur í stöðunni.

Engin ummæli: