laugardagur, janúar 10, 2009

Spilling, illska, föðurland og flöskuskeyti ungu stúlkunnar

Mótmæli, mótmælaaðgerðir, borgarafundir. Fimmtudagur, föstudagur, mótmæladagur, sunnudagur, borgarafundardagur, þriðjudagur. Tilveran hefur tekið stakkaskiptum síðan í haust.

Hnátan sem hér sést á mynd klappaði ákaft með litlu lófunum sínum fyrir ræðumönnum og af og til veifaði hún flösku með einhverjum skilaboðum í. Hvað ætli hafi staðið á miðanum í flöskunni? Var þetta mótmælaspjaldið hennar?

Mér finnst gaman að skoða mótmælaspjöld. Sá þessar áletranir: Haarde faarde burt og Auðmaður á ekkert föðurland. Svo kom ég auga á eitt þar sem stóð: Davíð er dýr. Já, hann er pottþétt rándýr, gamall og geðvondur tígur.

Þorvaldur Þorvaldsson flutti ræðu, en mér fannst mun tilkomumeira þegar hann brast í söng og flutti með þrumuraust lagið Aldrei einn á ferð (You´ll never walk alone, var tjáð að þetta væri baráttusöngur Liverpoolmanna).

Lilja Mósesdóttir hélt einnig tölu á fundinum, um margt ágæta en ákaflega langa. Mig grunar að hún hafi farið út í óþarflega mörg smáatriði eins og fræðimönnum hættir til að gera.

Lárus Páll Birgisson sjúkraliði er fæddur ræðuskörungur og hrífur fólk auðveldlega með sér. Það er ekki öllum lagið.

Annars finnst mér ég hafa heyrt þetta allt áður, allt sem sagt er í þessum ræðum. Og á hverjum degi dembast yfir mann ný dæmi um spillinguna sem viðgengist hefur í þessu skítaþjóðfélagi. Er að verða æði dofin í hausnum, og óttast að ég sé hundléleg byltingarkona. Finnst ég lítil og ómáttug. Verð að muna að taka lýsi.

Eftir mótmælin stikuðum við á stuðningsfund við Palestínu í Iðnó, þar var troðfullt út úr dyrum. Karl Blöndal blaðamaður flutti vitræna samantekt á ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs og margt fleira var á dagskrá, m.a. tæknilegir erfiðleikar og fínar ræður.

Þetta var ágætur fundur um ógn og skelfingu sem er langt ofar skilningi mínum.

Sit nú og Júróvisjón rúllar í sjónvarpinu fyrir daufum eyrum. Ef ég á að segja eins og er þá finnst mér að það mætti flytja Ísraelsríki eitthvað annað (stakk ekki einhver upp á Utah?). Það má alveg útiloka þá úr Júróvisjón í leiðinni.

Af hverju ættum við ekki að slíta stjórnmálasambandi við þjóð sem hagar sér eins og Ísraelsmenn gera? Við höfum engu að tapa, umheimurinn álítur okkur minnipokamenn. Sem við erum, sérstaklega ef við gerum ekkert í því óréttlæti sem viðgengst hér á landi og annars staðar í heiminum.

Engin ummæli: