mánudagur, júní 02, 2008
Tíminn starir stafrænn og hljóður á mig
Gamlar klukkur eru háværar. Þegar amma var ung minnti tíminn á sig með tikki, takki og dingdongi, rrringrrringi eða jafnvel gauki sem skreið út úr holu sinni og galaði sem óður væri. Í klukkum voru úrverk, tannhjól, skífur og skrúfur og maður þurfti að trekkja upp, eða toga í keðju til að halda áfram að heyra tímann líða. Og hann leið, lokaður inni í húsi, líkt og fugl í búri.
Nú til dags er tíminn þöglar blikkandi tölur sem hvarvetna blasa við, á símanum og ofninum, í tölvunni, bílnum og gvuðmávitahvar. Tíminn er sloppinn úr verkinu og gengur laus.
Hvert er ég að fara með þessu? Hef ekki grænan grun, finnst bara gamla fallega klukkan sem nýkomin er í stofuna mína óþarflega hávær og hún fékk mig til að hugsa um tímann, en ég vil ekki hugsa um tímann. Tíminn er geisp og klukkan er núið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli