miðvikudagur, júní 11, 2008

Gallblöðrunámserfiðleikar

Þið munið að mér er illt í maganum? Auðvitað munið þið það. Magaspeglunin um daginn leiddi í ljós magabólgur sem láta sér ekki segjast við magalyfjum, en mér var tjáð að svona þrálátar magabólgur væru oft "álagstengdar" (best að hætta að vera undir álagi þá). Því næst var ég send í ómskoðun, sem var öldungis ágæt rannsókn. Meltingarlæknirinn, sem renndi tóli sínu fimlega eftir skriplandi sleipum kviðnum á mér, sagði glottandi að ég væri með "rolling stone". Í gallblöðrunni. Hann sagði að ég þyrfti að fara í aðgerð. Mér leist ekkert sérlega vel á það, svo ég ráðfærði mig við heimilislækninn, sem útskýrði í löngu máli, með skýringamyndum, að ég þyrfti að fara í aðgerð. Æ, ég vil ekki fara í aðgerð, sagði ég við heimilislækninn, sem sendi mig til skurðlæknis. Skurðlæknirinn sagði glaðbeittur að ég þyrfti að fara í aðgerð.

Það er sumsé samdóma álit nokkurra lækna að ég þurfi að fara í aðgerð sem heitir gallblöðrunám. Gallblaðran mín er svo agalega treg að hún þarf að fara í nám sem felst í því að hún verður toguð út um kviðinn á mér, líkt og eilíen forðum úr Siggúrní Víver.

Í gær innritaðist ég á spítala með því að verja heilum morgni í bið, blóðtöku, bið, bið, viðtöl við hjúkkur og lækna, bið. Heillandi stöff. Svaraði óskaplega mörgum spurningum og fyllti út eyðublöð af ýmsu tagi. Aðgerðardagur var ákveðinn fimmtudagurinn 12.júní. Ég var kona reiðubúin, undirbúin, albúin, viðbúin, tilbúin og einbeitt, á leið í gallblöðrunám.

Haldiði að ég fái svo ekki hringingu í dag og mér sagt að aðgerðinni hafi verið frestað, engar skýringar gefnar. Gæti best trúað að dúkkað hafi upp smartari kúnni með svalari vandamál og mér ýtt til hliðar. Gallsteinar eru greinilega ekki nógu sexí.

Engin ummæli: