föstudagur, júní 06, 2008

Út með ruslið

Sat á fundi í vinnunni, nema vinnan mín var á Landspítalanum. Fann hvernig ég átti smátt og smátt erfiðara með andardrátt, vinstri nösin á mér fylltist af hörðu hori. Langaði mikið að fjarlægja stífluna með því að bora í nefið, en kunni ekki við það svona innan um fólk. Ákvað að bregða mér aðeins frá, stóð upp og gekk út. Togaði út úr nösinni stóran klump og svo meira og meira, fann að mér létti við þetta, en magnið virtist óendanlegt. Stóð loks á einhverjum sjúkrahúsgangi, haldandi á risastórum rauðum horhnykli, og leitaði örvæntingarfull að ruslafötu, fannst brýnt að losa mig við þennan vonda massa sem verið hafði í hausnum á mér og valdið mér andþrengslum og vanlíðan.
Róa sig. Mig dreymdi þetta í nótt. En það er ekki séns að ráða þennan draum eftir bókum, því táknin í honum eru tabú eða þykja of ómerkileg til að komast í draumráðningabækur.

Hjálmar segir að þegar mann dreymi svona sé undirmeðvitundin að fara út með ruslið. Kannski eitthvað til í því. En hvað gerir maður við sálarrusl?

Engin ummæli: