mánudagur, júní 30, 2008

Drykkjuraunabaunin

Aldrei hef ég barrotta verið. Reyndar má heita að ég hafi alla tíð verið hálf skemmtanaskert, vegna þess að ég hef lítið sóst eftir því að fara á "skemmtistaði". Að sitja í hræðilegum hávaða, heyra varla mannsins mál, vera að kafna úr reyk, sturta í sig áfengi - sá bara ekki pojntið. Sé það ekki enn.

Var svo heppin þegar ég hóf búskap (vart af barnsaldri) með mínum ágæta fyrrverandi og pínuponsu Ástu, að með okkur bjuggu vinkona mín og mágur, þetta var hálfgerð kommúna. Þau tóku að sér að fara með mínum fyrrverandi út á lífið, að skemmta sér, og ég gat setið heima með Ástu mína og gert eitthvað sem mér fannst skemmtilegt. T.d. að leika við hana, lesa eða sofa. Reyndar olli þetta ýmsum misskilningi. Eitt sinn vorum við Pétur að spjalla við kunningja hans sem leit á mig, síðan á Pétur og spurði: Hvar er konan þín? Ég stóð við hliðina á eiginmanninum, en kunninginn hélt auðvitað að vinkona mín væri konan hans Péturs, því þau höfðu svo oft verið saman á tjúttinu. Þetta fannst okkur fyndið.

Pöbbablaður, kokteilmas, barhjal, bjórröfl - jú, býst við að það hafi sinn sjarma. En þá verður maður að vera gefinn fyrir fyllerí.

Ég er fjarri því einhver félagsfæla eða gútemplari. Kann bara betur að meta samræður í litlum hópi skemmtilegs fólks, yfir góðum mat og víni. Mér þykir vænt um fólk, en leiðist að vera sauðdrukkin innan um fullt af fullu fólki (verra er þó vissulega að vera edrú í slíkum kringumstæðum).

Hugsanlega eyðilagði fyrsta fylleríið mitt drykkjuferilinn fyrir lífstíð. Flaska af Martini Bianco og fjórar 14 ára stelpur. Legg ekki meira á ykkur.

Engin ummæli: