Í dag var ég rifin niður í öreindir. Af fagmanni. Að því loknu var kantstykkjunum púslað saman, en restin liggur í húðlitum kassa. Muniði þegar þið fenguð nýja vaxliti - hvað húðliturinn var ljótur og hve vel hann entist? Og svo var hann ekki líkur neinni húð. Maður átti stafla af heilum húðlitum og hvítum vaxlitum og urmul gulra, rauðra og blárra stubba. Bréfið löngu rifið af.
Fékk að heyra enn eina ferðina að ég væri "of góð". Er einhvers staðar hægt að losa sig við þennan andskota - skyldi Sorpa taka við meintri góðmennsku minni? Það væri þá hægt að selja hana með öðru fánýti og kitsi. Ef einhver hirðir það góða hlýtur það að vera Góði hirðirinn.
Las skemmtilega lýsingu á feitum kalli í bók. Hann var ekki með mitti, heldur miðbaug. Og nú er ég farin að gera grín að holdafari fólks. Versnandi baun er best að lifa.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli