Sá einhver þáttinn á RÚV í gærkvöld um mataræði, meltingu, ristruflanir, vindgang og fleira áhugavert? Á kaffistofunni í dag reyndi ég að útskýra hvílík snilld þessi þáttur hefði verið, hló mig skakka þegar ég lýsti prumpubuxum og leiðslum upp í vængi sem söfnuðu gasi (vindgangur konunnar nam 3 lítrum, en karlsins 3,3 lítrum yfir daginn). Kom líka fram að hrár hvítlaukur er góður til að laga ristruflanir og að trukkabílstjórar eru mjög lengi að melta fæðuna (sem þýðir að þeir fara sjaldan á klóið). Fékk þetta velþekkta augnaráð vinnufélaganna, sambland af þolinmæði og umhyggju. Bregður líka fyrir stöku áhyggjuhrukku þegar ég ræði hugðarefni mín fjálglega og skelli mér á lær.
En sumsé, innblásin af því hvað grænmeti er hollt (kom fram í þættinum) trítlaði ég til bóndans í sveitinni og birgði mig upp af hollmeti. Takið eftir dökkfjólubláu gulrótunum - nýtt afbrigði, svaka gott. Standa samt varla undir nafni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli