sunnudagur, mars 11, 2007

Blóm, bakverkur, kúbein og ættartré

Helgin flaug hjá. Gerði svo margt, t.d.

- fór í keilu. Fékk aum 72 stig og grúttapaði auðvitað fyrir sonum mínum. Aldrei verið jafn léleg. Örvhenti snillingurinn minn, hann Hjalti, rúllaði okkur Matta upp.

- umpottaði. Blómunum mínum líður miklu betur núna. Pottþétt betur en mér alla vega, því ég er að drepast í bakinu eftir að burðast með stóra burknann um alla íbúð. Og svo stíflaði ég sturtuna endanlega með mold og laufi. Á engan drullusokk. Hvaða stíflueyðir er bestur?

- uppgötvaði að ég er farin að sofa í miðjunni á rúminu mínu. Skil ekki af hverju ég hef hangið "på sængekanten" þetta 1 1/2 ár síðan ég skildi. Miklu betra að liggja í miðju rúminu og teygja úr sér í allar áttir.

- fór á frábæra tónleika í Neskirkju þar sem Ásta dóttir mín lék einleik á klarinett, verk eftir John Speight, með sinfóníuhljómsveit Tónskóla Sigursveins, undir stjórn Arnar Magnússonar. Ásta stóð sig einstaklega vel og ég var að rifna úr stolti yfir frammistöðu litlu stelpunnar minnar, sem er nú reyndar orðin stór.

- keypti mér stofustáss fyrir 500 krónur. Á Skólavörðustígnum sem er uppáhalds gatan mín.

- fór í Europris, stóð þar innan um eintóma karlmenn og horfði löngunaraugum á öll verkfærin. Eins og þeir. Langar svo í vélsög, þvingu og vinnubekk. Og sporjárn. Og vinkil. Og bílskúr. Og kúbein.

- teiknaði upp fjölskyldutré fyrir syni mína, því þeir eru alltaf að ruglast á ættingjum sínum.

Engin ummæli: