laugardagur, desember 09, 2006

Vísindi byggð á ölraunum



Ég hef aldrei drukkið bjór að gagni. Nú veit ég af hverju. Mér þykir hann vondur. Var í frábærum félagsskap í gærkvöld að raða í mig öli og lager og hvað þetta heitir allt saman, undir leiðsögn færustu bjórmanna. Farið var eftir litasjatteringum, þ.e. byrjað á ljósum tónum og endað í dökkum (bjór er fallegur á litinn). Smökkuðum á Hoegaarden, Franziskaner, Duvel (vibbi!), Samuel Adams (lager og winterlager), Orval, gömlum Orval og eldgömlum Chimay. Jamm.

Gaman var að hengja orð á bragð og ilm ölsins, t.d. fundum við apótekaralakkrís, kjallara, rúgbrauð, súkkulaði, banana og alls kyns krydd. Ég glósaði í gríð og erg mína gúrmei-dóma um bjórinn, en þeir voru gjarnan á þessa leið: Vondur. Hundvondur. Ekki eins vondur og sá sem var á undan. Einn fékk dóminn "ekki vondur" (Samuel Adams, lager).

En kvöldið flaug hjá á ótrúlegum hraða. Enda félagsskapurinn framúrskarandi. Kann þeim Kalla, Hildigunni, Jóni Lárusi, Finnboga (efnafræðingur sem hafður var með af öryggisástæðum) og Dísu, bestu þakkir fyrir að ganga með mér þessa humluðu og beisku leið að óhjákvæmilegri niðurstöðu. Bjór er ekki tebolli baunar.

Engin ummæli: