fimmtudagur, desember 14, 2006

Brostnar vonir í lágvöruverslun

Ég er stödd í Hagkaupum með 15 ára unglinginn í eftirdragi. Markmið fararinnar: að festa kaup á skyrtu. Það ber að nefna að sonur minn vex svo hratt að ég heyri brak á nóttunni. Og hann var vaxinn upp úr fermingarfötunum sínum áður en rjómaterturnar kláruðust í veislunni. En nú er hann sem sagt staddur í einskismannslandi fatanúmera, orðinn of stór fyrir barnastærðir og ekki kominn með nógu digran svíra fyrir karlaskyrtur.

Núnú. Af kvenlegri þefvísi finn ég fljótlega í herradeildinni skyrtu sem unglingurinn telur ekki alvonlausa. Hún er samanbrotin og innpökkuð í plast. Finn bara medium og large en veit ekki hversu stórt medium er, því hvað er medium þegar maður fer að velta því fyrir sér? Ég skima í kringum mig eftir aðstoð. Kem auga á lágvaxinn, fíngerðan karlmann um sextugt í svartri og appelsínugulri litasjatteringu búðarinnar (þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla). Unglingurinn hálfliggur ofan á innkaupakerrunni, áhugalítill um framvindu mála.

baun: Já, góðan dag, geturðu aðeins aðstoðað mig?
(afgrm. nálgast, pirringsviprur fara um munnvik hans)
baun: Hvaða stærð af skyrtu heldurðu að strákurinn þurfi? (bendi á unglinginn)
afgrm: Hann fær ekkert hér, þetta er herradeildin.
baun: Matti minn, réttu úr þér (við þetta rumskar unglingurinn, réttir úr bakinu - og gnæfir yfir manninn)
baun: Heldurðu að medium passi?
afgrm: Það er hugsanlegt.
baun: Getum við fengið að sjá skyrtuna?
afgrm: Það má ekki taka hana úr plastinu.
baun: Hvernig er þá hægt að máta?
afgrm: Það er ekki hægt að máta. Þetta er lágvöruverslun.
(baun reynir þarna að leiða hjá sér samband yfirlýsingar afgreiðslumanns og hæðar hans)
baun: Já. Einmitt. En hvernig á maður þá að vita hvort fötin passi?
afgrm: Þetta er engin herrafataverslun, ef þú værir í herrafataverslun væri hægt að máta. (svei mér ef ég heyrði ekki bitran tón þarna hjá manninum)

Eftir tvö jöpl, eitt jam og þrjú fuður fóru mál þannig að allar skyrtur fengu að vera áfram í sínu plasti og engin var keypt. Og enn vantar unglinginn minn jólaföt.

Engin ummæli: