Pollurinn er stærri í dag og lífið ábyggilega flóknara, mun fleiri fletir til speglunar. Nútíma unglingurinn er t.d. býsna iðinn við að teygja út handlegginn, setja upp stút og smella af. Reyndar á þetta svo til eingöngu við um stelpur, en þær hef ég séð taka endalausar myndir af sér, í aðskiljanlegustu pósum (þeir strákar sem ég umgengst eru flestir niðursokknir í tölvuleiki og nenna varla að skipta um nærbuxur).
Var að velta vöngum yfir þessu, þ.e. áhrifum sjálfmyndatökuæðis stúlkna á sjálfsmynd og stað þeirra í úníversunni. Held þetta sé ekki endilega slæmt, því stúlka/kona getur smellt af sér hundrað myndum og fengið allavega eina þokkalega og þá er hún valin og hinum eytt. Gott er að eiga sæta mynd í fésbók.
Spurning hvort við verðum hégómlegri (og ráðvilltari) tegund með hverri kynslóð, í réttu hlutfalli við fjölgun spegla. Og skyldi Darwin hafa verið duglegur að skipta um nærbuxur?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli