mánudagur, júlí 06, 2009

Límonaði sítrónufólksins (gjaldeyrisskapandi skapandi þáttagerð raunveruleikans)

Á Skjáeinum er annar hver þáttur svokallaður "raunveruleikaþáttur". Slíkir þættir virðast mér gjarnan snúast um einhverja keppni (eða keppi, sbr. "The biggest loser"). Sjá má lið leysa raunveruleg sakamál (Murder), ungar stúlkur keppa í tíkarskap og fyrirsætufærni (ANTM), lið elda mat, vinna við glanstímaritagerð, þrauka í nábýli við snáka, eitraða froska og lygara, svo fátt eitt sé nefnt. Það þykir sem sagt spennandi að sjá "venjulegt fólk" í óvenjulegum aðstæðum.

Íslenska þjóðin (guð blessi hana) er ekki stór. Hún er lítil og sæt, ótrúlega mikið rassgat. Ég legg til að við bjóðum okkur fram til að vera eitt stykki raunveruleikaþáttur, heiminum til skemmtunar. Og fá borgað fyrir. *

Ætti að vera létt verk og löðurmannlegt að grafa upp lið hér á landi. Ekkert þarf að breytast, bara finna grípandi nafn á krógann, útjaskað selebb til að stjórna, og koma með kamerukrúið.

Action!


*í hvaða gjaldmiðli sem er nema íslenskum krónum

Engin ummæli: