


Helgin er búin að vera unaðsrík, hér kemur obbolítið nasahorn með sýnissjóninni. Og nei, ég horfi ekkert á Ólympíuleikana, mér leiðast skipulagðar íþróttir.
- Gekk á Geitafell í Þrengslum með góðum vinum. Í Geitafelli var krökkt af aðalbláberjum og krækiberjum (sbr. myndir hér að ofan)
- Nennti ekki að drekka rauðvín að gagni því mér leiðist þynnka heil reiðinnar býsn
- Ræddi um múmínálfana, Bob Moran, Legíonerinn, manninn með stálhnefana, Lilla, Basil fursta og fleiri risa bókmenntanna við vini mína
- Fann bleika burnirót (sjá mynd)
- Tíndi fjallagrös handa vinkonu minni sem bakar grasabrauð
- Var ekki í bænum í gær og missti af Gleðigöngunni
- Frétti að það væri afar slæm hugmynd að vera í hvítum buxum og borða Nóakropp í bíó
- Borðaði steinbít og aðalbláber að norðan, en mamma og pabbi færðu okkur björg í bú, nýkomin úr matarkistunni Dalvík. Berin þaðan eru langbest
- Bjó til berjasíróp, vanillusíróp og fiskbollur
Má engu muna að ég taki slátur, dansi skottís, baki soðbrauð og strokki smér, allt er svo búsældarlegt hér á Kirkjuteignum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli