laugardagur, ágúst 09, 2008

Aulatal

Á forsíðu Moggans gefur að líta ljóshærða stúlku tala í farsíma, sem væri ekki í frásögur færandi nema af því að hún er íslenskur keppandi á Ólympíuleikunum og gengur með samlöndum sínum í viðhafnarrófu þegar myndin er tekin. Vona að íþróttamennirnir taki símana ekki með sér þegar þeir keppa, alla vega ekki í sundi.
Er afar ósátt við "sparnaðarráð" á baksíðu Moggans. Auratal hefst á þessum orðum: "Þótt námsmann vanti ekki peninga í vetur kann það engu að síður að vera sterkur leikur hjá honum að taka námslán hjá LÍN og leggja til hliðar..." Svo er útlistað hvernig námsmaðurinn slyngi, sem á nægan pening fyrir, getur tekið námslán, lagt það til hliðar og ávaxtað á námsárunum. Hvað næst? Ábendingar frá Mogganum um hvernig hægt sé að fá atvinnuleysisbætur þótt maður vinni svart, feika veikindi og kría út örorkubætur og "leggja til hliðar"? Síðan hvenær hefur það verið hlutverk LÍN að hjálpa ríkum krökkum að koma sér upp "varasjóði"? Held að þessi blaðamaður Moggans ætti að kynna sér hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna og skammast sín, ef hann er fær um það.

Peningahyggjan er heimsk og blind.

Engin ummæli: