Í vinnunni í dag var ofbeldi til umræðu, og margar þess myndir, t.d. andlegt ofbeldi. Fólk talaði um að þeir sem beiti aðra ofbeldi "eigi bágt" og það sé eitthvað "verulega að hjá þeim". Búhú. Það er ábyggilega rétt að ofbeldismenn eigi bágt og vissulega er ekki í lagi með þá.
Símafyrirtæki þessa lands ýta undir möguleika á ofbeldi og ofsóknum, með því að bjóða upp á "þjónustuna" númeraleynd og nafnlausar sms sendingar. Ef maður verður fyrir endurteknu símaböggi, og böggarinn lætur sér ekki segjast, er þrautaleið að kæra til lögreglu, sem er ekkert smámál fyrir venjulegt fólk. Símafyrirtækin láta ekki gögn sín af hendi nema dómsúrskurður liggi fyrir (sem fæst í kjölfar kæru), og það fyndnasta í þessu öllu saman er að þótt sannað sé að tiltekinn fáviti úti í bæ beiti símanum sem vopni í sjúklegu einkastríði, þá er ekkert hægt að gera í því. Það er nefnilega ekki refsivert að haga sér eins og óuppdreginn skíthæll og sadisti og ofsækja aðra manneskju. Engin lög ná yfir slíkt athæfi, svo fremi líkamlegu ofbeldi sé ekki hótað eða beitt.
Getur einhver sagt mér af hverju símafyrirtækjum er svona umhugað um að fólk geti hringt og falið númerið sitt óáreitt? Til hvers???
Já, sá sem beitir ofbeldi á bágt. Bleyða sem ekki getur borið ábyrgð á eigin lífi, ákvörðunum og hegðan finnur sér einhvern til að níðast á.
Mig langar hér með að lýsa fyrirlitningu minni á þeim heigulshætti sem felst í símnotkun þar sem númeraleynd er viðhöfð ítrekað, og nafnlausu netofbeldi í hvaða mynd sem er, að ég nú tali ekki um þá sjúklegu skítahegðun að villa á sér heimildir sem virðist allt of auðvelt, jafnvel fyrir fávita af verstu sort.
Eitt er víst. Lítilmennska þrífst í skjóli nafnleyndar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli