fimmtudagur, desember 06, 2007

Bítur bók fés visku sama

Bið elskulega fésbókarvini mína nær og fjær og fyrirgefa mér. Ég var að bugast yfir grasserandi félagslífi sem átti sína eigin tilveru á síðunni Facebook og skráði mig því úr klúbbnum. Náði aldrei konseptinu, fannst ég bara ekki standa mig. Enn eitt til að íþyngja samvisku minni sem komin er hættulega yfir kjörþyngd.
Ég er með samviskubit yfir öllum blöðunum sem ég les ekki. Er með samviskubit yfir öllum matnum sem ég hendi, öllum vinum og ættingjum sem ég sinni ekki nógu vel. Er með samviskubit yfir því að hafa ekki sett upp jólaljósin, er með samviskubit yfir því að vera ekki byrjuð að kaupa jólagjafir, er með samviskubit yfir börnunum í Bíafra, er með samviskubit yfir þvottinum sem á eftir að brjóta saman, er með samviskubit yfir öllum fundunum sem ég missi af í skóla barna minna, er með samviskubit yfir hvað ég er fáfróð um Íslendingasögurnar, landafræði og sögu, er með samviskubit yfir fátækt í heiminum og getuleysi mínu til að mótmæla bullinu og ruglinu sem umvefur okkur. Í nánd og firð.

Legg ekki meira á ykkur.

Engin ummæli: