miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Hér er mjög langt ljóð sem heitir Hjartað slær

Tantra Nótt og Dagur Dúndri höfðu verið saman síðan í vélskóla. Sem var ekkert langur tími, en drjúgur. Eitt sinn vildi Dagur sýna Töntru ást sína í verki og gaf henni vandaða hjartsláttuvél. Tantra Nótt elskaði hjartsláttuvélina og gaf Degi Dúndra hjarta sitt í staðinn. Hún elskaði mjúkan taktinn í hjartsláttuvélinni sem sefaði og vaggaði og strauk tárin sem hrundu niður kinnarnar. Tantra Nótt elskaði að elska. Hún elskaði svo ákaft að Degi sortnaði fyrir augum og myrkur lagðist yfir hann frá morgni til kvölds. Í myrkrinu var Dagur týndur. Með dimmum róm heimtaði hann hjartsláttuvélina af Töntru sem fylltist brjálsemi og ást hennar þeyttist í allar áttir. Stefnulaus ást er vondur gripur. Degi rann til rifja taktlaus óreiðan og reyndi að gefa Töntru hjartsláttuvélina aftur, til að stilla konuna, en það var of seint. Tantra sveipaði um sig grárri ullarkápu og keypti sér sjálf eldrauða hjartsláttuvél. Hjartað er heimskur vöðvi, þuldi hún í sífellu. Svo glennti hún sundur á sér rifjahylkið með grilltöngum og tróð vélinni inn í brjóstholið í stað hjartans sem dagað hafði uppi hjá fyrrum elskhuga hennar. Í brjóstinu sló blóðrauð vélin hana í vélrænum takti. Nýi takturinn strauk aldrei tár af kinn.

Allur réttur áskilinn höfundi

Engin ummæli: