þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Bringuhár óskast

Ég hef stundað svokallaða starfsmannaleikfimi um nokkurra ára skeið og hefur þetta sprikl haldið bauninni réttum megin við Klepp og kroppnum í allgóðu standi. Til skamms tíma sáu kvenkyns sjúkraþjálfarar um þessa leikfimi sem var svona temmilega létt og þægileg. Við konurnar hreyfðum okkur saman í takt við skemmtilega tónlist. Allt í ljómandi sátt og samlyndi.

Í haust varð breyting á. Tveir massaðir karlar tóku að sér starfsmannaleikfimina, sem nóta bene, eingöngu konur hafa sótt í áranna rás. Ekki veit ég af hverju karlar hafa fúlsað við henni, held þeir séu spéhræddari en konur.

Hvað um það. Leikfimin byrjaði á fullu í haust og ég mætti samviskusamlega að vanda. Í fyrstu leist mér vel á karlkyns þjálfarana, það var meiri hraði, meira púl (50 armbeygjur) en líka meiri keppni í tímum. Ég fann vöðvana hrannast upp, þolið og þrekið batnaði hratt. Svo gerðist hið ófyrirsjáanlega (í myrkrinu), ég mölvaði bein í hjólaslysi og hef ekkert getað hreyft mig að gagni í sjö vikur. Þar til í dag. Baunin ákvað að byrja aftur að sprikla.

Konurnar í leikfiminni eru upp til hópa ljúfar, dagfarsprúðar og indælar. Í dag sá ég aðra hlið á þeim. Vegna ofuráherslu karlkyns þjálfaranna á samkeppni hefur óhugnanleg þróun átt sér stað. Smávaxin og lítillát kona, læknaritari, beraði augntennurnar og urraði á mig, þegar ég reyndi að ná af henni boltanum. Hægláti hjúkrunarfræðingurinn skaut svo fast í hausinn á mér að mig sundlaði. "Miðið á brjóst og neðar" æpti þjálfarinn.

Allt er nú breytt. Gömlu góðu leikfimitímarnir eru horfnir. Nú ríkir keppnisharkan ein. Enginn vill hafa mig með í liði og er það sárt flassbakk frá því ég var í skóla, eyminginn sem þurfti að fara í bakæfingar og missti oft af leikfimitímum fyrir vikið.

Hvar fæ ég testesterón svo ég geti varið mig í næsta tíma? Á ég kannski að mæta með hjálm? Kaupa mér bringuhár? Fá mér ógnandi tattú?

Engin ummæli: