miðvikudagur, apríl 22, 2009

Hér er ekki fjallað um brjóst

Ég er búin að taka "kosningapróf" á mbl.is og hvað.is. Þar er mér sagt að einn flokkur samrýmist mínum skoðunum þokkalega. Sannleikurinn er sá að ég á í stökustu vandræðum með að velja á milli S og VG. Stefna VG í umhverfismálum er sú eina sem mér hugnast og í mínum augum eru umhverfismál afskaplega mikilvæg. Hins vegar er stefna VG í Evrópumálum óforbetranlega afturhaldssöm. Sé ekki hvað er að því að sækja um aðild að Evrópusambandinu (og hafa svo þjóðaratkvæðagreiðslu um málið). Hvernig í ósköpunum er annað hægt en að skoða þann kost?

Kæri póstur, hvað get ég tekið til bragðs? Ekki dettur mér í hug að skila auðu, eða klippa fokkmerki út úr kosningaseðlinum. Ég vil að mitt atkvæði hafi vægi, þótt lítið sé, enda er ég ekki landsbyggðatútta með stór brjóst.*

*afsakið, ég meina "stór atkvæði"

Engin ummæli: