miðvikudagur, apríl 29, 2009

Flýgur svínasagan

Man þegar allir voru með hland í brók yfir "2000 vandanum" sem átti að leggja vestræna siðmenningu í rúst. Sett var á laggirnar "viðbúnaðaráætlun fjólublár" hjá Almannavörnum og fólk eyddi mokfé í vírusvarnir eða hvað þetta nú hét. Góðæri fyrir tölvukalla, allt í fína með það.

Svo fengu fjölmiðlar fuglaflensuna og ríkislögreglustjóri setti á laggirnar "viðbúnaðarstig grábölvaður". Í kjölfarið sá maður fyrir sér Dickensíska senu, ólseiga grindhoraða kalla keyra hjólbörur fullar af líkum á Laugaveginum, sturta hræjunum í hauga á Ingólfstorgi, flugur sveimandi yfir og allir sem áttu að kveikja í löngu dauðir. Nálykt yfir borginni, vargurinn slítandi í sig mannaket, einn og einn veikur hósti til að rjúfa dauðakyrrðina. Allir auðvitað steindauðir heima hjá mér á Kirkjuteignum, nema páfagaukurinn.

Ekki batnar það. Nú, í miðri klípunni, eru fjölmiðlar komnir með svínaflensu. Það hljómar fremur óflatterandi að fá svínaflensu. Apótekin rokselja spritt og grímur. En fyrir utan nafnið, hvað er svona miklu verra við þessa flensu en aðrar flensur? Venjulegar inflúensur leggja fjölmarga að velli, á hverju einasta ári. Því þetta fár? Því allur þessi viðbúnaður? Af hverju lýsti Arnold yfir neyðarástandi í Kaliforníu? Ég skil bara ekki neitt í neinu, það er t.d. sagt að flensan sé ekki svo skæð nema í Mexíkó og þar eru um 160 látnir (óstaðfest). Hvernig getur flensuvírus orðið vægari við það eitt að fara yfir landamæri? Og ef einhver hnerrar í Leifsstöð, verður honum umsvifalaust pakkað inn í husholdningsfilm? Æ, er ástæða til að hræða okkur svona, við sem erum varla miklir bógar um þessar mundir. Þeir hefðu alla vega getað valið eitthvað sakleysislegra, t.d. gullfiskakvef eða hamstrabólgu.

Mér dettur helst í hug að það væri ráð að bólusetja fjölmiðla gegn flensu.

Engin ummæli: