Mamma mín er enn að vinna fulla vinnu, orðin 68 ára gömul. Hún sér m.a. um að kaupa inn skrifstofuvörur fyrir stóra ríkisstofnun. Fyrir helgina trítlaði hún út í bókabúð í hjarta Reykjavíkur, með innkaupakort stofnunarinnar, eins og svo oft áður. Á kassanum í bókabúðinni var ungur maður sem kunni ekki almennilega á kerfið og sló fyrst inn vörurnar eins og í reikning, en mamma útskýrði fyrir honum að hún yrði að nota kortið. Tek fram að mamma er dagfarsprúð kona og aldrei hef ég vitað hana koma dónalega fram við fólk.
Unga manninum tókst á endanum að finna út úr þessum innslætti, rétti mömmu vörurnar og sagði við hana, ískalt: Komdu þér svo héðan út og láttu helst ekki sjá þig framar.
Oft er talað um að afgreiðslufólk verði fyrir barðinu á mislyndi viðskiptavina, en þarna var málum þveröfugt farið. Ósköp er leiðinlegt þegar fólk getur ekki sýnt af sér kurteisi, það er bara óþægilegt og vont að verða svona fyrir geðillsku manna. Á sama hátt getur það hreinlega bjargað deginum að finna gott og hlýtt viðmót hjá fólki sem maður á samneyti við. Af einu eða öðru tagi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli