mánudagur, október 29, 2007

Af guðum og geimverum

Einhver sagði mér einhvern tímann (þið megið hafa mín orð fyrir því) að mesta hvalveiðiþjóð í heimi væru Bandaríkjamenn. Já, Kanarnir, þessir góðu gaurar sem elska hvali meira en fólk. Af því hvalir eru svo gáfaðir og kunna að tala saman oní sjónum, en hvað vitum við nema hvalirnir séu bara að spjalla um yfirborðslega hluti eins og smart hrúðurkalla eða gular tennur?

Fáar aðrar þjóðir ryðjast inn í lönd með hervaldi til bjargar eymingjum sem búa við vonda stjórn (af hverju hafa þeir aldrei komið hingað?). Bandaríkjamenn virðast lifa í þeirri trú að hvergi búi fólk við betra stjórnarfar en í blessuðu Kanans landi. Frjáls þjóð. Frelsi til að hafa hverja þá trú og hverja þá skoðun sem þeim dettur í hug, og segja frá því. M.a.s. fólk sem trúir á geimverur (Vísindakirkjan) er tekið alvarlega. Ef ég upplýsti það hér og nú að ég tryði á geimverur - en ekki guð - tækjuð þig mig alvarlega? Ætla rétt að vona ekki, frekar en ef ég segðist trúa á guð en ekki geimverur.

Talandi um vonda stjórn. Ég hef ekki mörg prinsipp í lífinu en eitt af þeim er þetta: Maður drepur ekki fólk. Ég vil ekki taka þátt í því að deyða aðra manneskju. Þess vegna er ég alfarið og kategórískt á móti dauðarefsingu. Getur verið að Bandaríkjamenn séu að átta sig á 5. boðorðinu*, og það lögfræðingar í þokkabót?

Guð (og geimverurnar) láti gott á vita.

*þú skalt ekki hval deyða

Engin ummæli: