"Já, þetta er bara eins og flóasirkus", sagði ég.
Dauðaþögn við borðið. Skilningsvana hálfbros tylltu sér á varir vinnufélaganna.
"Ég meina, þið vitið, svona flóasirkus þar sem lifandi flær draga litla vagna og hjóla á línu og svoleiðis, en reyndar sumir segja að þetta hafi bara verið plat og stjórnað með seglum og.....", babblaði baun.
Samstarfsfólkið kinkaði kolli, þolinmótt, og hélt síðan áfram að tala um pallbýlahúsvagnana sína. Það hafði ekki hugmynd um hvað flóasirkus væri. Hvað er að þjóðfélagi sem elur af sér þegna sem ekki þekkja flóasirkus? Hvernig getur manneskja, eldri en tvævetur, ætlast til að aðrir taki hana alvarlega verandi með þessa brotalöm í menningarlegum gagnabanka sínum? Ég er að tala hér um fólk í ábyrgðarstöðum, lækna jafnvel. Mynduð þið treysta sálfræðingi sem ekki er viðræðuhæfur um flóasirkus? Ég bara spyr. Og hvað gerði ég til að bæta ástandið? Gróf mig oní núðlurnar og hugsaði, hei, þetta er í fyrsta skipti sem ég tala um flóasirkus við fólk...af hverju ætli ég hafi ekki gert það fyrr?
Sem barn var ég hugfangin af flóasirkus, las allt sem ég fann um þetta fyrirbæri og ígrundaði rækilega hvort það væri raunverulega hægt að þjálfa flær. Hvernig væri það gert? Með oggulitlum svipum? Ponkulitlum blóðdropum? Reyndar skilst mér að flær lifi ósköp stutt þannig að þjálfun þeirra hlýtur að vera nokkuð endurtekningarsöm vinna.
Elsku bloggvinir nær og fjær. Hér gefst einstakt tækifæri til þroska. Farið ekki menningarlega í mínus út á meðal fólks. Gjörið svo vel að smella á tenglana og sjúgið að ykkur fróðleik.
Hvað er flóasirkus?
Hvað er flóasirkus?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli