föstudagur, maí 15, 2009

Keðjusagartrjámorðinginn, brumm brumm og bókarýni hin minni

Það er maður úti í garði að saga niður öll tré sem fyrir honum verða. Ég held hann geti ekki hætt.

Í dag hjólaði ég í vinnuna, allar afsakanir uppurnar. Rannsóknir mínar hafa leitt í ljós að lygilega margar brekkur eru upp í mót, en fáar niðrímót. Og Miklabrautin er óárennileg hindrun á leiðinni í vinnuna, beljandi stórfljót, hávaði, mengun og svifryk. Er hálf hrædd við hana. Bílar eru ógnvekjandi fyrirbæri, skil ekki hvað fólk sér við þá annað en praktíkina. Að vera með bíladellu er fyrir mér eins og að vera með brennandi áhuga á klósettpappír. Eða tja, kannski skiljanlegt að einhverjum þyki gaman að bílum, það heyrist brumm brumm í þeim og þeir geta verið fallegir á litinn. Svona er ég víðsýn.

Nú er ég nýbúin að lesa Konur eftir Steinar Braga og þótti hún örlítið óþægileg, en alls ekki fram úr hófi ógeðsleg eða hneykslanleg. Það var búið að vara mig svo við bókinni að ég varð eiginlega fyrir vonbrigðum. Mér þótti Himnaríki og helvíti, eftir Jón Kalman Stefánsson, miklu sterkara verk.

Lifið heil og passið ykkur á bílunum.

Engin ummæli: