mánudagur, október 02, 2006

Lifið heil, eða gróið vel

Það er allt í fína lagi með mig. Ef ég hefði vitað hvað það er lítið mál að brjóta bein, hefði ég verið löngu búin að því.

Húsmæðraorlofið var sallafínt. Vinkonurnar umvöfðu mig dúnmjúku umönnunarofbeldi og gerðu ekki nándar nærri nógu mikið grín að mér. Í kjallara hótelsins að Reykholti eru alls kyns fyrirbæri og græjur, t.d. nuddstólar, ilmþerapía og stjörnum skrýtt slökunarherbergi. Ég náttla skellti mér í einn nuddstólinn og ýtti á takka. Stóllinn lifnaði umsvifalaust við, greip þéttingsfast um herðar, rass og fætur mér, eiginlega óx utanum mig eins og vafningsjurt, og byrjaði svo að hamast, þannig að ég hristist ákaflega og skókst með mín brotnu bein. Þetta var víst stillingaratriði. Ég hló svo mikið að ég þurfti 2 kg af parkódíni. Fyrir hádegi.

Annars langar mig að þakka ykkur öllum hjartanlega fyrir hlýjar kveðjur. Kemst ekki yfir það hversu heppin ég er að þekkja svona margt frábært fólk. Ást og friður elsku vinir:o)

Engin ummæli: