Linda systir er þremur árum yngri en ég og telst því ævinlega vera litla systir mín. Hún tók því starfsheiti af slíkum þunga að hún þorði ekki að teygja fullorðinshæð sína nema rétt upp í handarkrika á mér. Þótt hún sé lítil, er hún ekkert lítil. Hún er nefnilega stór karakter og kjörkuð. Þegar við vorum (báðar) litlar, þá var það hún sem þorði. Þorði allt.
Ég var ekki alltaf góð við hana litlu systur mína, laug t.d. að henni að hún væri ekki systir mín, heldur hefði mamma heyrt væl eitthvert kvöldið þegar hún var að fara út með ruslið og þegar hún opnaði tunnuna þá lá þessi skítugi krakki þar, organdi. "Það varst þú, Linda mín", sagði ég. Þetta fannst henni ákaflega miður. Svo fannst mér hún grenja allt of oft og vera of frek og þreytandi. Sagði henni einu sinni að ef hún gréti svona mikið, þá mundi hún klára öll tárin sín og það gæti orðið bagalegt í framtíðinni. "Sko, t.d. ef þú giftist og maðurinn þinn deyr og svo ertu í jarðarförinni og ætlar að gráta og þá eru bara öll tárin uppurin. Þá segir fólk að þú sért vond kona, grátir ekki einu sinni þótt maðurinn þinn liggi í kistunni."
Svona var ég slæm stóra systir. En yngri systkini geta nú tekið á taugarnar. Það hef ég sannarlega séð í samskiptum minna barna. Ég er líka alveg hætt að vera vond við hana, mér þykir nefnilega ósköp vænt um þessa litlu systur mína. Bara þegar ég segi "systir", þá hitnar mér allri að innan. Samt höfum við aldrei verið neitt sérlega samrýmdar, enda ólíkar að skapgerð. En mikið er gott að eiga systur. Eiginlega bara nauðsynlegt, svei mér þá.
Af hverju er ég að þvaðra þetta? Jú, ég er nefnilega ekki í sem bestu skapi og áðan varð mér að orði dálítið sem við Linda systir sögðum í gamla daga þegar við vorum fúlar:
Kúkur piss og ræpana.
Prófið bara að segja þetta. Það hjálpar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli