Fyrsta skóladaginn minn í 1.bekk B, Kópavogsskóla, settist ég hjá stelpu. Hún var dökk yfirlitum og dálítið þungbrýnd en tók mér vel. Við sátum saman upp frá þessum degi allan grunnskólann og allan menntaskólann. Oft var okkur hótað sundurstíun vegna kjaftagangs og óviðráðanlegra flisskasta sem kennurum þóttu misgóð skemmtun. Okkur var strítt, man t.d. einu sinni þegar við vorum eitthvað að fíflast og hnoðast að hrekkjusvínið í bekknum kallaði hátt: þið eruð lesbíur! Þessi meinta móðgun bar ekki tilætlaðan árangur, þar sem við skildum ekki orðið lesbía. Fórum heim og spurðum mömmu: hvað er lesbía? Mamma útskýrði það og við létum okkur fátt um finnast. Fannst hrekkjusvínið bara kjáni.
Stúlkan hægra megin á myndinni, já, þessi skeggjaða með ögrandi augnaráðið, þetta er vinkona mín hún Rúna. Án hennar hefði ég ekki öðlast neinn félagslegan þroska, því hún skipulagði nær alla æsku mína. Ég væri mannafæla og jafnvel þjóðskjalafræðingur ef hennar hefði ekki notið við. Takk Rúna mín og til hamingju með afmælið!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli