fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Lúalegt samband við heimilistæki í Austurbænum

Loksins búin að fá rafvirkja og málara og þá þarf leiðindajaxlinn að brotna. Þessi sem er búinn að vera mér til ama drjúgan tíma. Af því að ég er búin að bíta svo fast á hann. Jaxlinn. Betra að vera án sumra harðjaxla, stefni að því að losna alveg við þennan. Hann á sér litla framtíð í mínum haus, nema hægt sé að laga hann. Glætan.

Ætli ég verði ekki að fá mér aukadjobb til að eiga fyrir iðnaðarmönnunum og tönnunum. Ferlega langar mig annars að kunna að gera fleiri hluti sjálf, eins og að tengja ljós, bora í vegg, skilja raftæki og kunna á verkfæri. Er skíthrædd við rafmagn og hef aldrei lagt mig eftir því að komast inn í hugarheim heimilistækja. Nota þau bara, reyni ekkert að skilja af hverju þau eru eins og þau eru. Hef aldrei strokið Kitchen-aid hrærivélinni minni og hvíslað að henni að ég upplifi söknuð hennar eftir gamla heimilinu, þar sem hún bjó í rúm 20 ár. Hef aldrei sökkt mér ofaní bæklinga um dvd-tækið og reynt að skilja af hverju á því blikka stundum marglit ljós. Hef aldrei lagað klukkuna á örbylgjuofninum mínum svo hann veit ekkert hvað tímanum liður. Held hann haldi að það sé alltaf nótt, bregst ekki að hann kveiki ljósið, jafnvel um hábjartan dag.

Þetta er auðvitað lúaleg framkoma af minni hálfu.

Engin ummæli: