mánudagur, ágúst 24, 2009

Rifs og Elvis

Get svo svarið að ég er búin að vera gal-mega-ofur-spídígonsales dugleg undanfarið. Tíndi ber, sultaði, græddi péning fyrir Hollvinasamtök Grensásdeildar, hét á hlaupagarpinn minn í hálfmaraþoni, lagaði bílskúrshurðaopnara hjá mömmu og pabba (nei, það var nú Hjálmar), bakaði fagra rifsberjatertu og hélt matarboð þar sem eldaður var Elvis-pelvis.*

Á sunnudaginn fórum við Hjalti litli í bókabúð að kaupa skóladót og þar mætti okkur brennivíns-þynnkustækja svo römm að ég hélt eitt andartak að við hefðum villst inn á Keisarann sáluga. Það var greinilega gaman á Menningarnótt, og greinilega ekki eins gaman daginn eftir að olnboga sig áfram í troðfullri ritfangaverslun. Blessað fólkið.

Og nú verður stefnan tekin norður á bóginn til móts við ótínd ber og óveiddan fisk. Búbaunin lætur ekki að sér hæða og má ekkert vera að þessu rafgaufi.

Elvis rokkar í kjötinu.


*Hægeldaður svínabógur í heimalagaðri bbq-sósu, uppskriftin er úr bókinni Are you hungry tonight?

Engin ummæli: