Þetta byrjaði allt með ferð norður á Dalvík, en þar býr stór og góður föðurleggur minn. Á Dalvík veiddum við í soðið og tíndum ber. Fórum líka á Byggðasafnið, en það finnst mér skemmtilegt og gott safn.
Baun var býsna fiskin, dró ýsur og stundum þorsk. Eitt sinn kom upp úr kafinu þöngulhaus ægifagur, hann hefði maður átt að hirða. Hausinn hefði sómt sér vel sem borðskreyting, klósettbursti eða órói í svefnherberginu.
Í Ólafsfjarðarmúla kom leyndur fæðingargalli baunar sér vel, nefnilega baklægar sogskálar á þremur aukaörmum sem gerðu henni kleift að hanga í snarbrattri hlíðinni og tína ber ofan í tíu lítra fötur.
Fyrir utan krækiber, eru fyrir norðan bláber, aðalbláber og aðalber (þau eru kolsvört eins og sjá má á myndinni). Dalvíkingum þykja aðalberin best. Mér þykja öll berin best.
Þetta er hann Depill. Þótt Depill sé bara lítill kanínustrákur er hann stór upp á sig og leggur sér skrautjurtir til munns. Hann leit ekki við gulrótum og káli, en kjamsaði á stjúpum sem hún Dísa skáfrænka mín gaf honum úr garðinum.
Já, það er ekki ljótara en það. Nú er ég búin að frysta, sulta og safta sleitulaust í tvo daga. Brá á það ráð að baka risastóra hjónabandssælu til að losna við rabbarbarasultu sem til er í bunkum á heimilinu (þar losnuðu tvær krukkur). Búsældin ríður ekki við einteyming hér á Kirkjuteignum.
Held ég leggi ekki meira á ykkur að sinni, enda kappnóg.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli