Í gær urðum við fyrir Howard-Bealískri reynslu. Ýmislegt hefur gengið á undanfarið, bankarnir hrundu og sonna, þarf ekki að fara nánar út í það. Hrunið er þó hjóm eitt miðað við það að vera rukkaður um klementínur þegar maður kaupir sér appelsínur á tilboði. Við urðum þess áskynja eftir Bónusferð (bölvaður sé bónus og allt hans hyski) að afgreiðslustúlkan, sem þekkti ekki hvítkál frá sjampóbrúsa, hafði haft af okkur nokkur hundruð krónur. Slík var klementínsk fákænskan. Oftast nennir maður ekki að ergja sig mikið, rennir yfir strimilinn og sér einhverja tíkalla svindlaða út hér og þar, en finnst ekki taka því að gera eitthvað í málinu. Klementínurnar voru kornið sem fyllti mælinn, við brunuðum í Bónus, uppfull af réttlátri reiði: I´m as mad as hell, and I´m not gonna take it anymore!
Án teljandi blóðsúthellinga fengum við endurgreiddar 560 krónur.
Að öðru. Ég er svo ánægð með að stjórnvöldum hafi ekki tekist að rústa öllu, þrátt fyrir kappsemi í kolrangri stefnu. Þegar við héldum að við værum rík þjóð, voru uppi háværar raddir um að hætta matvælaiðnaði, mun hagstæðara væri að flytja inn allt fóður. Eins gott að landbúnaðurinn var ekki þurrkaður út, og allar rollur og hænur sendar til himna. Tala nú ekki um blessaðar beljurnar. Ómælda gleði vakti í brjósti mínu ný framleiðsla, íslensk "grísk" jógúrt, fjarskalega góð. Á meðan til er fólk á skerinu sem nennir að framleiða hnossgæti af þessu tagi, þá er hlíðin fríð og ég fer ekki rassgat.
Þar að auki verður einhver að borga skuldirnar, það geta ekki allir flúið land.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli