sunnudagur, mars 13, 2011

Genetíska

Í sumar sem leið varð ég fyrir barðinu á bragðskynsbrenglun sem nefnist furuhvoftur. Það var óskemmtileg lífsreynsla sem fær mig til að forðast furuhnetur eins og pestina. En ekki var nóg á mína tungu lagt, onei. Eftir skæða flensu fyrir u.þ.b. mánuði gerðist tvennt: ég hætti að geta drukkið kaffi og kúgaðist ef ég fann lykt eða bragð af agúrkum.

Sem betur fer lagaðist kaffióþolið, einhverja miskunn á guð tungunnar til. En agúrkur eru ennþá limur andskotans.

Nú vill svo til að móðir mín hefur alltaf sagt að gúrkur væru viðbjóður. Ég hef hlegið góðlátlega að þessari vitleysu í henni, enda gúrkur eiginlega næsti bær við vatn sem þarf að tyggja.

Á gúrkuhatrinu finnst skýring. Hún er genetísk og vel þekkt. Þetta er allt mömmu að kenna. Það er bara eitt sem ég ekki skil: Af hverju tók sig upp þetta gen hérna megin við fimmtugt?

Engin ummæli: