miðvikudagur, júlí 05, 2006

Ný sýn

Það tekur á að skilja. Skyldi vera tilviljun að sögnin "að skilja" getur haft nokkrar merkingar? Það að skilja hefur breytt mér. Í kjölfar skilnaðarins gerði ég stór mistök og lenti í ýmsum hremmingum og kom ekki vel út úr þeim. Það sem verra var, ég missti að vissu leyti sýn á hvað var raunverulegt. Skilnaður snýr lífi manns á hvolf og maður er ekki í góðu jafnvægi eftir slíka reynslu. Þetta skilja þeir sem hafa skilið, eða ættu að skilja það alla vega. Séu þeir almennilegt fólk.

Ég missti líka að vissu leyti sýn á hverjir vilja mér vel og hverjir ekki. Dómgreind mín á fólk bjagaðist. Manneskja sem ég hélt að vildi mér illt, vildi mér ekkert illt. Manneskja sem ég hélt að vildi mér gott, vildi mér ekkert gott, heldur sigldi undir fölsku flaggi.

Nú er ég reynslunni ríkari. Út úr hremmingunum mun ég koma varkárari, víðsýnni, þroskaðri, umburðarlyndari og betri manneskja. Því trúi ég og þakka þeim sem hjálpa mér á þessari grýttu leið. Ég þakka þeim sem vilja mér vel.

Engin ummæli: