sunnudagur, apríl 17, 2005

Innanlandsflug...

getur verið hálfgert happdrætti, það hef ég reynt á eigin skinni. Veðurtepptist á Akureyri í gær, en þar var ég stödd á ráðstefnu um læsi á 21.öldinni. Fín ráðstefna. Á Akureyri voru, auk mín og 300 annarra ráðstefnugesta, nokkur þúsund ungmenni vegna Söngkeppni framhaldsskólanna. Sumsé - afar slæmt að veðurteppast akkúrat á þessum tíma, t.d. ekki mikill séns á gistirými. Það er skemmtileg tilviljun að síðast þegar ég var stödd í höfuðstað Norðurlands veðurtepptumst við hjónin þar. Eftir margra tíma bið á flugvellinum hafði Flugfélagið þó afrekað að senda töskuna okkar suður - þeim er ekki alls varnað. En við stóðum sumsé úti í norðlenskri stórhríð án gistingar, bíls (ekki einn einasta bílaleigubíl að fá), tannbursta eða annarra nútímaþæginda. Starfsmaður á flugvellinum setti á sig snúð þegar við mölduðum í móinn og sagðist ekki bera ábyrgð á veðrinu. Það er ábyggilega rétt hjá honum.

En aftur til gærdagsins - ég fékk á endanum far með fjórum góðum konum á suðurleið. Þær voru ljómandi skemmtilegar og gekk ferðin heim snurðulaust - ekkert stoppað á leiðinni nema einu sinni til að taka olíu. Var reyndar að drepast úr hungri og verkjum í fótum allan tímann, enda óétin síðan um hádegi og í þröngum pæjustígvélum og dragt (kona á framabraut er flott í tauinu - skítt með tær og annað sem kremst). Þegar ég skreiddist yfir þröskuldinn heima, seint um kvöldið, kyssti ég parketið, velti mér yfir á bakið og kallaði æst á Pétur. Hann skildi hvað ég vildi, dró umsvifalaust af mér stígvélin og eldaði svo handa mér tvo hamborgara. Ég er vel gift kona.

Engin ummæli: