sunnudagur, febrúar 19, 2006

Í fréttum er þetta helst

Líf mitt er ævintýri. Langar að deila með ykkur örfáum stiklum.

1. Lenti í kjánalegu slysi. Opnaði eldhúsgluggann minn rösklega (brussulega), en þá vildi ekki betur til en svo að ég klemmdi höndina í stormjárninu og væri þar enn föst ef Matti minn hefði ekki hjálpað mér að skrúfa stormjárnið af.

2. Fór tvisvar í bíó með mömmu í vikunni - hún lét eins og ég væri að gera henni greiða - en sannleikurinn er sá að mammsa gamla var bara að drífa dóttur sína út úr húsi. Takk elsku mamma, þú ert best! Og myndirnar voru frábærar, Mrs. Henderson og Brokeback mountain (sem er besta mynd sem ég hef séð í áravís).


3. Í vikunni lá ég löngum stundum undir sæng. Hlustaði mikið á tónlist. Keypti mér 10 nýja geisladiska. Í einni sængurlegunni hugsaði ég rosalega mikið um hvernig ég ætlaði að smella á mig gulu gúmmíhönskunum, láta renna vatn í fötu, skúra og síðan bóna svefnherbergisgólfið. Hugsaði þetta trekk í trekk og er ekki frá því að ég hafi fengið harðsperrur í heilabörkinn.

4. Fann silfurskottur í fínu íbúðinni minni. Á stefnumót við meindýraeyði í fyrramálið.

5. Damien Rice og Mugison eru snillingar.

Legg ekki meira á ykkur í bili.

Engin ummæli: