föstudagur, september 02, 2005

Sínu máli talan talar...

og ekki alltaf þannig að við dauðlegir menn skiljum. Var heima í gær að vinna í rannsókninni minni, enda með allt á hælunum í sambandi við skrif og frágang niðurstaðna. Þar sem ég rýndi í einn bunkann (þar sem voru þeir sem stóðu sig verst í lestrarprófinu) rakst ég á einstakling sem mér fannst nú ekki svo slæmur...hmmm...hugsaði ég, þetta er skrítið, af hverju er þessi náungi í 10% verstu? Sendi aðferðafræðingi mínum póst og gekk svo á með sendingum þar sem ég lét mig ekki þótt hún teldi að ég væri að verða vitlaus (að efast um tölur sem spýttust út úr spss forritinu hennar). Hún féllst að lokum á að kíkja á þetta, með semingi og andvarpi. Hringdi stuttu seinna í mig og það fyrsta sem hún sagði var: hvað voruð þið búin að birta? ARG, skelfing. Sem betur fer höfðum við aðeins birt niðurstöður um lestrarvenjur, en ekki prófið. Allar tölur út úr prófinu voru nefnilega meira eða minna vitlausar. Ég sat því sveitt við í gær og hún líka og milli okkar gengu 20 símtöl og 40 tölvupóstar. Hún skildi hvorki upp né niður í því hvernig þetta hafði gerst en líklegasta skýringin er að excel og spss forritin hafi lent í tungumálaerfiðleikum. Mjög stressandi dagur.

Skrítið að vinna svona heima. Hér mætti, as per júsúal, heill haugur af frískum drengjum eftir skóla. Ákvað að slá tvær flugur í einu höggi, baka pönnsur og gefa á garðann og gleðja líka kallinn sem væntanlegur var frá Amsterdam síðdegis. Bakaði heila Hallgrímskirkju af pönnsum, kallaði í drengina og sneri mér að því að laga kaffi. Leit við og Hallgrímskirkja var horfin. Drengirnir gleyptu í sig háan staflann á 2 mínútum, og þegar kallinn kom heim fékk hann bara ilminn af pönnsunum.

Títtnefnd talnavandræði minna mig, ekki spyrja af hverju, á vísu eftir snillinginn Þuru í Garði sem ég hef alltaf haldið mikið upp á:

Morgungolan svala svalar
syndugum hugsunum
sínu máli talan talar
talan úr buxunum.

Engin ummæli: